Ávarp framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa 2024
Íslensk verðbréf - nýtt félag á traustum grunni
Góður gangur var á rekstri SIV eignastýringar árið 2024 sem var fyrsta heila rekstrarár félagsins. Eignir í stýringu námu 95 milljörðum króna í árslok, samanborið við 64 ma.kr. við lok árs 2023. Félagið er nú með 10 sjóði í rekstri fyrir almenna fjárfesta og fagfjárfesta og stofnaði einn sjóð á liðnu ári.

Á miðju ári var gerð breyting innan samstæðu Skaga þar sem stýring sérgreindra safna og eignaleiða hjá Fossum fjárfestingabanka var færð frá bankanum til SIV eignastýringar. Þessi breyting eykur hagræði innan samstæðunnar og bætir umgjörð eignastýringar fyrir viðskiptavini.
Á árinu 2025 mun félagið sameinast ÍV sjóðum undir nafni Íslenskra verðbréfa. Við sameininguna verður til öflugt eigna- og sjóðastýringarfélag með 200 ma.kr. í stýringu. Gert er ráð fyrir að samruninn taki mið af áramótunum að fengnu samþykki eftirlitsaðila.
Eignamarkaðir voru heilt yfir hagfelldir á árinu þrátt fyrir talsverðar sveiflur sér í lagi á fyrri hluta árs. Seðlabanki Íslands hóf vaxtalækkunarferli á síðari hluta árs, samhliða því sem verðbólga tók að hjaðna. Í kjölfarið tóku eignamarkaðir við sér þegar líða tók á haustið.
Með lækkandi vaxtastigi jókst innflæði í skuldabréfa og hlutabréfasjóði og er fyrirséð að sú þróun haldi áfram. Sameinað félag Íslenskra verðbréfa hefur upp á að bjóða fjölbreytt sjóðaframboð fyrir jafnt almenna fjárfesta sem og fagfjárfesta. Félagið býður upp á lausafjársjóði, skuldabréfa- og hlutabréfasjóði, jafnt innlenda sem og erlenda sjóði.
Auk hefðbundinna opinna sjóða rekur félagið lokaðar afurðir fyrir fagfjárfesta á borð við kreditsjóði en slíkir sjóðir taka við fjármagni frá fjárfestum og lána til fyrirtækja innanlands. Sameinað félag verður með fjóra slíka sjóði í rekstri en tveir kredit sjóðir eru starfræktir hjá SIV sem og hjá ÍV sjóðum. Útlit er fyrir að kreditmarkaðir muni vaxa nokkuð hérlendis á næstu árum og teljum við talsverð tækifæri fyrir kredit sjóði hérlendis næstu árin.
Eignastýringarsvið félagsins sér um stýringu eignasafns VÍS auk þess að bjóða öðrum stærri fjárfestum upp á eignastýringarþjónustu. Árangur við stýringu eignasafns VÍS var viðunandi á árinu en ávöxtun safnsins var 8,3% og fjárfestingatekjur 3,7 ma.kr. Síðastliðin 7 ár hefur virk stýring eignasafns VÍS skilað um 3% árlegri umframávöxtun umfram viðmiðunarvísitölu.
Árangur sjóða félagsins var heilt yfir góður á árinu en SIV hlutabréf var með hæstu ávöxtun sjóða innlendra rekstrarfélaga árið 2024 sem og innlendra hlutabréfassjóða auk þess að ÍV Erlent Hlutabréfasafn var með hæsta ávöxtun íslenskra sjóða sem fjárfesta í erlendum hlutabréfum.
Ég er mjög spenntur fyrir vegferðinni sem er framundan er. Hjá sameinaðu félagi Íslenskra verðbréfa starfa sérfræðingar með mikla reynslu af eigna- og sjóðastýringu. Ég er sannfærður að fjölbreytt sjóðaframboð félagsins og það reynslumikla teymi sem hjá félaginu starfar komi til með að höfða vel til viðskiptavina. Við hjá Íslenskum verðbréfum lítum björtum augum til komandi árs.
Arnór Gunnarsson
Framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa