Ávarp stjórnarformanns 2024
Gott fyrsta ár samstæðu
Við tókum stór skref á árinu 2024 í þróun samstæðu Skaga. Grunnrekstur á öllum starfssviðum samstæðunnar batnaði á sama tíma og við héldum áfram að huga að framtíðarsýn félagsins.

Sterk samstæða Skaga
Fyrir þremur árum kynntum við markmikið um að umbreyta Vátryggingafélagi Íslands hf. Eitt af þeim markmiðum sem við settum okkur var að útvíkka starfsemi félagsins og fjölga tekjustoðum. Nú, þremur árum seinna, er samstæðan með u.þ.b. 220 milljarða króna í stýringu fyrir sína viðskiptavini, auk umsvifamikillar fjárfestingarbankastarfsemi. Á komandi ári gerum við ráð fyrir að þessi fjármálatengda þjónusta skili um 15% af afkomu félagsins og eru vaxtahorfur hjá félögunum okkar á þeim markaði bjartar. Ég held því að við höfum fylgt þessum markmiðum vel eftir og hefur fjölgun tekjustoða gengið framar vonum.
Síðastliðið ár var um margt jákvætt fyrir samstæðu Skaga. Árið er fyrsta heila starfsár samstæðunnar og hélt umbreytingarferli félagsins áfram m.a. með tilfærslu tryggingastarfsemi í nýtt dótturfélag undir lok árs. Annað stórt skref voru kaup félagsins á Íslenskum verðbréfum hf. sem komu inn í samstæðuna undir lok ársins. Kaupin á Íslenskum verðbréfum höfðu átt sér nokkurn aðdraganda og fellur rekstur þess vel að starfsemi félagsins, annars vegar eignastýringarstarfsemi SIV og hins vegar fjárfestingarbankastarfsemi Fossa. Með samþættingu félaganna og eflingu sameinaðrar eignastýringar undir merkjum Íslenskra verðbréfa verður félagið enn öflugra.
Lykilstaða fjármálamarkaði
Með stofnun SIV, og sameiningu við Fossa og nú kaup á Íslenskum verðbréfum hefur orðið til fyrirtæki á fjármálamarkaði sem er í sterkri stöðu á fjármálamarkaði. Félagið hefur skýran fókus á fjárhagslegt öryggi viðskiptavina, hvort sem er í tryggingum, fjármögnun eða fjárfestingum. Félagið er með sérstöðu með öflugan óháðan fjárfestingarbanka, sem er öflugur milligönguaðili fjármagns innanlands og erlendis, ákjósanlegur samstarfsaðili fyrirtækja í markaðsfjármögnun, öflugt eigna- og sjóðastýringarfélag með góða vaxtarmöguleika og ekki síst öflugt tryggingafélag. Við sjáum mikil tækifæri í því að vera óháð, en teljum okkur líka vera í lykilstöðu til áframhaldandi þátttöku í þróun og hagræðingu á markaði.
Áframhaldandi áhersla á vöxt
Áhersla hefur verið á vöxt rekstrarfélaga Skaga, sú áhersla heldur áfram á nýju ári. Ég er bjartsýnn á að vátryggingarekstur samstæðunnar haldi áfram á sömu braut og árið 2024, og að fjármála- og fjárfestingarekstur vaxi enn frekar með batnandi markaðsaðstæðum.
Við höfum lagt áherslu á að tengja saman hagsmuni hluthafa og starfsfólks og leyfa starfsfólki að njóta góðs af árangri með kaupaukakerfi og útgáfu kauprétta. Kaupréttaráætlun til eins árs var gefin út árið 2023 og aftur þriggja ára áætlun undir lok árs 2024. Markmið áætlunarinnar eru að samþætta hagsmuni starfsfólks við langtímamarkmið félagsins.
Við kynntum verulegar áherslubreytingar félagsins í janúar 2023. t.a.m. að gera félagið söludrifnara, bæta grunnrekstur tryggingastarfseminnar, auka tekjur af fjármálastarfsemi, gera félagið að virkum þátttakanda í umbreytingu á fjármálamarkaði og gera félagið að enn vænlegri fjárfestingarkosti með skýrum áherslum á fjármagnsskipan og arðsemi.
Það er óhætt að segja að við erum á góðri leið varðandi alla þá þætti sem lagt var lagt upp með og sjáum tækifæri á að gera enn betur á okkar vegferð.
Aðalfundur 2024
Stjórn félagsins mun á aðalfundi 2024 leggja til að félagið greiði hluthöfum arð sem nemur 0,2637 kr. á hlut fyrir reikningsárið 2024 sem jafngildir 500 milljón krónum, að teknu tilliti til eigin bréfa. Arðgreiðslan samsvarar 22% af hagnaði ársins eftir skatta. Í ljósi fjárfestingar í bæði innri og ytri vexti á árinu er arðgreiðsla ársins undir stefnu stjórnar um að greiða að lágmarki 40% af árlegum hagnaði í arð til hluthafa.
Á síðasta ári nam arðgreiðsla 1.000 milljónum króna, auk þess sem félagið keypti eigin bréf á markaði að upphæð 27,8 milljónir að nafnvirði eða 500 milljónir að markaðsvirði. Félagið hlaut viðurkenningu Stjórnvísis fyrir góða stjórnarhætti á árinu og um leið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.
Ég vil þakka stjórn Skaga kærlega fyrir afar traust og gott samstarf á árinu. Einnig vil ég þakka forstjórum, Haraldi og Guðnýju Helgu, sem nú hefur tekið við sem forstjóri VÍS trygginga hf., fyrir mjög gott samstarf sem og starfsfólki samstæðunnar.
Stefán Héðinn Stefánsson
Stjórnarformaður Skaga