Hoppa yfir valmynd

Sjálf­bærni skiptir máli

Við viljum að starfsemi okkar og þjónusta stuðli að sameiginlegum ávinningi fyrir allt samfélagið.

Aðalstarfsemi samstæðunnar felst í tryggingastarfsemi, fjárfestingum, eigna- og sjóðastýringu ásamt fjárfestingarbankastarfsemi. Í grunninn skiptist þessi starfsemi samstæðunnar í þrjár megin áherslur, tryggingastarfsemi, fjármálastarfsemi og fjárfestingar.

Ófjárhagsleg upplýsingagjöf 2024

Eftirfarandi upplýsingagjöf miðast við tryggingastarfsemina. Ófjárhagsleg upplýsingagjöf fyrir dótturfélögin má finna í ársreikningum þeirra. Upplýsingagjöf Skaga og dótturfélaga um flokkunarreglugerð ESB (e. EU Taxonomy) fyrir fjármálaþjónustu og fjárfestingar má finna í ársreikningi samstæðu Skaga.

Skagi er aðili að Festu, miðstöð um sjálfbærni, IcelandSIF, samtökum um ábyrgar fjárfestingar sem og UN-PRI, reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Skagi er einnig aðili að UN Global Compact, alþjóðlegum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um innleiðingu ábyrgra starfshátta.

Stefna Skaga byggir enn á stefnu VÍS um sjálfbærni sem fjallar um áherslur í UFS málaflokkum (umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti) sem eru viðeigandi fyrir starfsemi tryggingafélaga. Stjórn félagsins ber ábyrgð á stefnunni, forstjóri og framkvæmdastjórar bera ábyrgð á innleiðingu — og að henni  sé fylgt í starfsemi félagsins. Sameining félaganna í samstæðunni er nýtilkomin og unnið er að stefnumótun á samstæðugrundvelli og því hafa sjálfbærniáherslur á samstæðugrundvelli ekki verið mótaðar.

VÍS er áfram hæst á meðal tryggingafélaga í UFS mati Reitunar

Skagi fékk 80 stig Í UFS mati Reitunar árið 2024 sem er sami stigafjöldi og ári áður. Greining Reitunar nær yfir samstæðu Skaga, en byggir að stærstum hluta á rekstri VÍS sem skorar hæst á meðal tryggingafélaga.

Umhverfi

Skagi hlaut 88 stig fyrir umhverfisþáttinn í UFS mati Reitunar og hækkar um einn punkt milli ára. Í samantekt kemur fram að Skagi starfar eftir mælanlegum umhverfismarkmiðum og hefur keypt vottaðar kolefniseiningar fyrir mælda losun. VÍS stefnir einnig að því að reikna losun frá trygginga og eignasafni sínu sem ekkert tryggingafélag hefur hingað til reiknað út af kolefnisfótspori tryggingar. VÍS gerir áhættumat m.t.t loftslagsbreytinga sem er hluti af áhættustýringakerfi félagsins og er aðkoma stjórnar og stjórnenda að loftslagstengdum málefnum virk. Þess ber að geta að mest umhverfisáhrif tryggingafélaga snúa að tjónum og tjónamunum.

Sjálfbærni í tjónum og þjónustu

Notaðir varahlutir hafa verið nýttir við bílaviðgerðir til margra ára hér á landi, en undanfarin 30 ár hefur VÍS selt um 1.000 tjónaða bíla á ári á uppboðum þar sem bílarnir eru ýmist lagfærðir eða bútaðir í sundur til þess að gefa varahlutum framhaldslíf. VÍS hefur eitt tryggingafélaga boðið upp á lokuð uppboð á tjónabílum sem eru eingöngu fyrir varahlutasala með tilskilin starfsleyfi til að rífa niður bíla í varahluti og selja áfram til viðgerða á bílum.

Það er mikilvægt VÍS að leggja raunverulega að mörkum við að styðja við hringrásarkerfið. Það er til að mynda gert með tilraunaverkefnum líkt og samstarfi við partasala við niðurrif á tjónabílum, með það að markmiði að auka framboð af notuðum varahlutum í viðgerðir á ökutækjum. Á árinu var fylgt eftir verkefni þar sem 45 bílar af ákveðnum tegundum voru valdir til að fara í niðurrif til partasala. Árangurinn er að um 20% af varahlutum bílanna öðluðust framhaldslíf við viðgerðir á bílum. Veltuhraðinn á varahlutunum er hægur en mikill lærdómur er af verkefninu sem nýtist VÍS í næstu aðgerðum til að styðja við hringrásarkerfið.

VÍS leggur áherslu á viðgerðir á ökutækjum eins og unnt er í stað útskiptinga á varahlutum. Hlutfall viðgerða á plasti og bílrúðum er lægra hér á landi en hjá samanburðarlöndum. VÍS setur markmið um að hækka hlutfall viðgerða í stað útskiptinga á varahlut. Hlutfall framrúðuviðgerða í stað útskiptinga á bílrúðum óx úr 16% í 19,6% á milli ára og stefnir VÍS á enn hærra hlutfall. Áætlaður sparnaður við losun kolefnis er um 43,5 kgCO2 á rúðuviðgerð í stað rúðuskipta á framrúðu.

Góður árangur náðist á árinu að auka rafræn og pappírslaus viðskipti til að minnka pappírsnotkun og draga úr kolefnislosun vegna ferða starfsmanna og viðskiptavina. Hvort sem það er með auknum rafrænum tjónstilkynningum, myndsímtölum til að meta vatnstjón eða aukinni sölu í gegnum stórbætta netverslun VÍS. Notkun rafrænna undirritanna hjá VÍS skilaði af sér sparnað í 194.931 kílómetrum skv. útreikningum hugbúnaðarfyrirtækisins Taktikal.

Á árinu hefur VÍS aukið áherslur sínar á sjálfbærari kostum til neytenda þegar kemur að því að versla tryggingar á netinu. Nú geta viðskiptavinir VÍS keypt tryggingar stafrænt á nokkrum mínum sem bæði spara tíma, gefur aukið gagnsæi og þægindi.

Vottaðar kolefniseiningar

Fjórða árið í röð kolefnisjafnaði félagið losun af rekstri félagsins með vottuðum einingum Climate Impact Partners. Þau verkefni sem valin eru endurspegla valin heimsmarkmið.

Félagslegir þættir

Skagi fékk 90 punkta fyrir félagsþætti í UFS mati Reitunar og heldur áfram að huga vel að mannauði, starfsánægju og ánægju viðskiptavina. VÍS hefur sett það sem eitt af forgangsverkefnum fyrirtækisins að auka ánægju viðskiptavina sinna og var árið 2024 í þriðja sæti í ánægjuvoginni og eina tryggingafélagið sem hækkaði á milli ára. Félagið fylgist vel með ánægju viðskiptavina sinna bæði í gegnum mælingar sem eru framkvæmdar eftir þjónustusnertingar ásamt því að kaupa mælingar af óháðum aðilum sem mæla markaðinn í heild sinni. Eitt af markmiðum VÍS fyrir árið 2024 var að fjölga frumkvæðissnertingum viðskiptavina sinna ásamt því að innleiða þjónustustefnu sem setur viðskiptavini VÍS í fyrsta sæti. 

Mannauðsmál og starfskjarastefna 

Ánægja og helgun starfsfólks mælist áfram mjög hátt eins og undanfarin ár. Helgun er 4,33 á skalanum 1-5 og starfsánægja 4,47, en 94% starfsfólks er ánægt eða mjög ánægt í starfi. Þetta eru frábærar niðurstöður. Í uppfærðri starfskjarastefnu félagsins kemur nú fram að horft sé til áherslu á sjálfbærni og tengingu við langtímahagsmuni. Árangur í sjálfbærni hefur þ.a.l. verið, frá og með 2025, tekið inn í kaupaukaviðmið í kaupaukakerfi starfsmanna. Starfskjarastefnu félagsins má nálgast á heimasíðu Skaga.

Styrkir til samfélagsins 

VÍS leggur sig fram við að vera til staðar í nærsamfélögum sínum um land allt. Í gegnum þjónustuskrifstofur okkar á landsbyggðinni styrkjum við hin ýmsu samfélagslegu málefni og íþróttir. Að auki úthlutar VÍS 10 m kr á ári til samfélagslegra verkefna í samræmi við styrktarstefnuna hverju sinni. Á árinu 2024 var ákveðið að endurskoða styrktarstefnuna í takt við uppfærða stefnu VÍS og verður hún gefin út í lok árs. Á árinu voru samt sem áður veittir styrkir til forvarnarverkefna eins og myndband um öryggisbúnað við hestamennsku, endurskinsvesti fyrir grunnskólabörn, skíðahjálmar á skíðasvæði, ókeypis smokkar á Þjóðhátíð og styrkur til að endurgera vefsíðu Eldvarnarbandalagsins. Einnig hafa yfir 1.800 barnabílspeglar verið gefnir í sængurgjafir til nýbakaðra foreldra í viðskiptum en þeir geta aukið verulega öryggi í umferðinni og minnkað líkur á truflun. Að auki var boðið upp á skyndihjálparnámskeið til ungra foreldra ásamt öðrum forvarnarnámskeiðum bæði til fyrirtækja og einstaklinga. Þegar jarðhræringarnar gengu yfir á Reykjanesi og Grindvíkingar þurftu að yfirgefa heimili sín um síðustu áramót ákvað VÍS að endurgreiða einstaklingum og fyrirtækjum iðgjöld af fasteignum og heimilum sem námu allt að 6 mánuðum. 

Á hverju ári styðja Fossar gott málefni með því að veita í það þóknanatekjum bankans í einn dag, nefndur „Takk dagurinn“, ásamt framlögum frá viðskiptavinum og samstarfsaðilum. Fossar hélt fyrsta Takk daginn í nóvember 2015 þegar Mæðrastyrksnefnd fékk fyrsta styrkinn, 2,5 milljónir króna. Frá þeim tíma hafa framlögin vaxið ár frá ári í takti við aukna starfsemi Fossa, og með því að taka með heildarupphæðina sem safnað var á síðasta ári (26,5 milljónir), hefur Takk dagurinn skilað samtals yfir 140 milljónum króna til þeirra sem hafa fengið styrki til góðra málefna síðan söfnunin hófst.

Stjórnarhættir

Skagi fékk 76 stig fyrir stjórnarhætti, sem er hækkun um eitt stig milli ára. Almennir stjórnarhættir og viðskiptasiðferði er metin í góðum farvegi hjá félaginu. Í kjölfar þess að samstæðan Skagi varð til, hafa stjórnarhættir verið uppfærðir með tilliti til nýs skipulags samstæðunna. Starfsemi stjórnar Skaga og dótturfélaga uppfyllir kröfur sem gerðar eru í matinu og fylgir félagið leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Starfandi er stjórn móðurfélagsins Skaga og er hvert dótturfélag með eigin stjórn. Dótturfélög vinna eftir skýrri eigendastefnu. Frekari upplýsingar um stjórnarhætti samstæðunnar má finna í stjórnarháttayfirlýsingu Skaga.

Árið 2021 var VÍS fyrsta tryggingafélagið á Íslandi til þess að verða aðili að UN-PRI, reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Í gegnum eignasafn sitt hefur félagið mikil áhrif. Með því að taka tillit til sjálfbærniþátta í fjárfestingum lágmarkar félagið áhættu tengda sjálfbærnimálum — á sama tíma og það virkjar önnur félög til betri starfshátta.  

Heims­mark­miðin

Skagi styður sérstaklega við eftirfarandi heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna:

Heimsmarkmið 3: Heilsa og vellíðan. Með forvörnum í broddi fylkingar fækkum við tjónum og hvetjum til betri lífsstíls. Undirmarkmið 3.6 felur í sér að fækka banaslysum í umferðinni.

Heimsmarkmið 5: Jafnrétti kynjanna. Skagi leggur sérstaka áherslu á jafnrétti kynjanna með jafnréttisstefnu og siðasáttmála. Skagi leggur metnað sinn í virka jafnlaunastefnu og að viðhalda jafnlaunavottun.

Heimsmarkmið 8: Góð atvinna og hagvöxtur. Við tryggjum fyrirtæki, starfsemi þeirra og eignir. Þannig tryggjum við góða atvinnu og hagvöxt. Með samvinnu við fyrirtækin fækkum við tjónum og bætum öryggi starfsmanna. Undirmarkmið 8.8 felur í sér að stuðla að öruggu og tryggu vinnuumhverfi fyrir allt launafólk. Með samvinnu við viðskiptavini okkar stuðlum við að öruggu vinnuumhverfi með öflugum forvörnum.

Heimsmarkmið 12: Ábyrg neysla og framleiðsla. Ábyrg neysla og framleiðsla með innleiðingu sjálfbærrar þróunar.

Heimsmarkmiðin

Stjórn­ar­hátta­yf­ir­lýsing

Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að ábyrgri stjórnun og vandaðri ákvarðanatöku og stuðla að traustum samskiptum milli hluthafa, stjórnar, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagaðila. Stjórnarhættir Skaga snúast um að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnenda félagsins innbyrðis, og gagnvart hluthöfum, og auðvelda þeim þannig að ná markmiðum sínum.

Hjá Skaga er lögð rík áhersla á að þróa stöðugt og styrkja góða stjórnarhætti innan félagsins, og að ferli og vinnubrögð samræmist alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum um bestu framkvæmd á sviði stjórnarhátta.

Stjórnarháttayfirlýsing

Meira áhugavert efni

Árið 2024

Gott fyrsta ár samstæðu. Ný samstæða Skaga var kynnt formlega í febrúar 2024 og hefur fyrsta starfsár samstæðunnar verið um margt gott.  

Lesa meira

Starfsemin

Skagi er móðurfélag VÍS, Fossa og Íslenskra verðbréfa og stefnir á arðbæran vöxt á sviði tryggingastarfsemi, fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringar.

Lesa meira

Lykiltölur

Helstu lykiltölur úr rekstri félagsins árið 2024.

Lesa meira

Ávarp stjórnarformanns

Við tókum stór skref á árinu 2024 í þróun samstæðu Skaga. Grunnrekstur á öllum starfssviðum samstæðunnar batnaði á sama tíma og við héldum áfram að huga að framtíðarsýn félagsins.

Lesa meira

Ávarp forstjóra

Síðasta ár var viðburðaríkt þar sem ný samstæða Skaga hóf sitt fyrsta starfsár.

Lesa meira