Ávarp forstjóra 2024
Markmiðum ársins náð
Síðasta ár var viðburðaríkt þar sem ný samstæða Skaga hóf sitt fyrsta heila starfsár.

Samstæða Skaga hefur nú lokið sínu fyrsta starfsári og það hefur verið gríðarlega ánægjulegt að sjá helstu markmið ársins verða að veruleika. Tekjur uxu á öllum rekstrarsviðum, og batnar afkoma talsvert milli ára. Í dag er Skagi stöndugt og vel fjármagnað fjármálafyrirtæki, með arðbæran tryggingarekstur, öfluga fjárfestingabankastarfsemi og reynslumikið eignastýringarteymi sem býr að framúrskarandi sögulegri ávöxtun.
Bættur grunnrekstur
Rekstur ársins 2024 var um margt góður í grunnrekstri samstæðunnar, þ.e. vátrygginga og fjármálarekstur. Sérstaklega hefur verið ánægjulegt að sjá jákvæðar breytingar á rekstri VÍS árið 2024 skila jafn góðum árangri og raun ber vitni, en rekstur félagsins hefur umbreyst sem hefur lýst sér í bæði auknum tekjuvexti og lækkandi kostnaðarhlutfalli, sem er í samræmi við væntingar og markmið félagsins. Þá hafa tekjur af fjármálastarfsemi aukist mikið og náðust þau tekjumarkmið sem sett voru fyrir árið 2024, þrátt fyrir mjög krefjandi aðstæður á fjármálamörkuðum framan af ári.
Kaup á íslenskum verðbréfum
Í maí tilkynntum við um kaup á öllu hlutafé í Íslenskum verðbréfum hf. og dótturfélagi þess, ÍV sjóðum hf. Við höfðum haft augastað á félaginu um nokkurt skeið, enda eru Íslensk verðbréf gott fyrirtæki með góða og langa rekstrarsögu. Það er jafnan hægt að ná fram talsverðri samlegð af eignastýringarrekstri og horfum við að sjálfsögðu til þess, en ekki síst sjáum við tækifæri í að þjónusta viðskiptavini félagsins, sem að talsverðu leyti eru staðsettir á Norðurlandi, enn betur. Á nýju ári munum við sameina Íslensk verðbréf inn í Fossa fjárfestingarbanka, og ÍV sjóði við SIV eignastýringu. Það félag mun starfa undir nafni Íslenskra verðbréfa, og verður stærsta eignastýringarfélag utan bankanna fjögurra, með um 200 milljarða króna eignir í stýringu.
VÍS tryggingar verða til
Líkt og kynnt var undir lok árs 2023 hefur verið unnið að því að færa tryggingareksturinn í nýtt dótturfélag, VÍS tryggingar hf. Samþykki Seðlabanka Íslands fékkst fyrir tilfærslunni undir lok árs 2024 og tók VÍS tryggingar hf. til starfa um síðast liðin áramót.
Þar með náðist mikilvægur áfangi í skipulagi félagins, móðurfélagið, Skagi hf. verður með þrjár einingar undir, VÍS tryggingar á tryggingamarkaði, Íslensk verðbréf á eigna- og sjóðastýringarmarkaði og Fossa Fjárfestingarbanka á fjármálamarkaði. Félögin starfa sjálfstætt á sínum mörkuðum, með starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabankans, en vinna saman og ná fram samlegð þar sem tækifæri skapast til, unnið hefur verið samkvæmt þessu fyrirkomulagi innan samstæðunnar frá ársbyrjun 2024. Markmiðið með þessum breytingum var meðal annars að ná frá skýrri afmörkun rekstrar og efnahags, ráðstöfun fjármagns og arðsemiskröfu og arðsemismælinga eininga.
Krosssala og samþætting milli félaga
Ein af lykilforsendum samruna Fossa og VÍS á sínum tíma var að fá félögin til þess að vinna náið saman til þess að ná fram bæði tekju- og kostnaðartækifærum. Við lögðum mikið upp úr þessu á síðastliðnu ári og hefur árangurinn verið góður.
Krosssala milli félaganna gefur gengið með ágætum og hefur verið sérstaklega ánægjulegt að heyra frá ánægðum viðskiptavinum sem hafa átt snertifleti við fleiri en eitt félag innan samstæðunnar. Við sjáum mikil tækifæri til framtíðar í frekari krosssölu milli VÍS, Fossa og Íslenskra verðbréfa enda höfum við trú á að viðskiptavinir okkar upplifi aukið virði í því breiða vöruframboði sem við bjóðum nú upp á. Eftir sem áður leggjum við áherslu á hátt þjónustustig og langtíma viðskiptasambönd sem byggja á gagnkvæmu trausti.
Í uppgjöri okkar á þriðja ársfjórðungi 2024 gerðum við grein fyrir samþættingaraðgerðum sem við höfum ráðist í til þess að auka kostnaðarhagræði samstæðunnar, en árleg áhrif þeirra aðgerða nema um 300m kr. Við höldum áfram að horfa til þess að auka skilvirkni innan samstæðunnar, meðal annars með því að nýta sameiginlega innviði okkar.
Erum á góðri leið
Síðasta ár var fyrsta heila starfsár nýrrar samstæðu Skaga og var mikilvægum áföngum náð í vegferð félagsins í átt að langtímamarkmiðum. Um áramótin lauk formlega flutningi tryggingarekstrar í dótturfélagið VÍS tryggingar hf. og er samstæðan því komin í sitt framtíðarhorf. Unnið hefur verið að samþætta starfsemi eininga innan samstæðunnar með það að markmiði að nýta sóknarfæri sem myndast til að tekjuaukningar samhliða því að ná fram aukinni skilvirkni í rekstri. Félagið hafi unnið markvisst að innri vexti og náð góðum árangri á því sviði á síðasta ári. Mikill viðsnúningur hefur átt sér stað í rekstri VÍS með aukinni arðsemi og sókn í markaðshlutdeild. Bankastarfsemin hjá Fossum vex hratt og með innkomu Íslenskra verðbréfa í samstæðuna verður til stærsta eignastýringarfélag landsins utan viðskiptabankanna fjögurra, með ríflega 200 milljarða í stýringu. Á árinu 2024 tókum við því markviss skref í átt að langtímamarkmiðum okkar og það er óhætt að segja að við séum góðri leið.
Haraldur I. Þórðarson
Forstjóri Skaga