Hoppa yfir valmynd

Ánægðari og fleiri viðskipta­vinir 

Árið 2024 var frábært ár hjá VÍS. Eftir miklar umbreytingar á árinu 2023 sáum við þær aðgerðir bera augljósan árangur á síðasta ári. Við náðum markmiðum okkar um iðgjaldavöxt, lækkun kostnaðar og ánægju viðskiptavina og starfsfólks. Viðskiptavinum okkar er nú að fjölga í fyrsta sinn frá árinu 2017 og ánægja þeirra er jafnframt að aukast.

Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS

Á árinu 2024 lögðum við upp með að uppskera árangur af þeim aðgerðum sem við lögðumst í árið 2023, og byggja undir frekari árangur á komandi árum. Tekjuvöxtur ársins var sá mesti í 6 ár og sækjum við til baka markaðshlutdeild eftir lækkun síðustu ár. Þá lækkaði kostnaðarhlutfallið skarpt á árinu en það má rekja til tekjuvaxtar og áherslu okkar í því að byggja upp tæknilausnir sem fækka handtökum. Þetta hefur birst í fækkun stöðugilda en jafnframt hraðari og betri þjónustu. Það er margt sem býr að þessum mikla viðsnúningi, en á árinu 2023 kynntum við umfangsmiklar aðgerðir þar sem við umbyltum sölufyrirkomulagi, jukum þjónustu við landsbyggðina, kynntum nýja netverslun og þéttum hóp okkar frábæra starfsfólks. Á komandi ári munum við halda áfram á sömu vegferð með það að augum að verða best í þjónustu á tryggingamarkaði.

Tekjuvöxtur í tryggingastarfseminni

Eftir viðsnúning í tekjuvexti árið 2023, bættum við enn frekar í á árinu 2024, en tekjur jukust um 10,2% á árinu samanborið við 8,2% árið 2023. Þessi vöxtur er yfir vexti markaðarins í heild og stefnum við að því að halda áfram sama dampi á komandi ári. Við höfum á síðustu tveimur árum séð vöxt í skírteinafjölda en nú sjáum við einnig fjölgun í okkar viðskiptavinahópi í fyrsta sinn í 8 ár. Þá hefur, annað árið í röð, verið metvöxtur í sölu líf- og sjúkdómatrygginga. Við erum afar stolt af þessum árangri.

Traust bakland í óvissu lífsins

Tjón ársins í ár voru í takt við væntingar. Við fórum þó ekki varhluta af stærri tjónum en 6 stórtjón féllu í okkar hlut sem hefur vissulega áhrif á niðurstöðu ársins. Við sjáum þó skýr merki um heilbrigðan vöxt þar sem tjónum fjölgaði um 0,9% á meðan skírteinafjöldi hefur aukist um 4,6%. Talsverð lækkun varð á samsettu hlutfalli sem skýrist að stærstu leiti af lækkun kostnaðarhlutfalls milli ára og arðbærum vexti. Afkoma af vátryggingasamningum nam 1.479 milljónum, og nemur viðsnúningurinn milli ára alls 1.336 milljónum króna. Við erum stolt af því að vera traust bakland viðskiptavina okkar, en á árinu greiddum við 20,3milljarða í tjónabætur til viðskiptavina og skráðum rúmlega 37 þúsund tjón. Við erum meðvituð um okkar ábyrgð að stuðla að bættum forvörnum til að stuðla að því að allir komi heilir heim í lok dags. Árlega höldum við stærstu forvarnarráðstefnu landsins en að auki nýtum við öll tækifæri til að koma mikilvægum skilaboðum um einfaldar en gagnlegar forvarnir til okkar viðskiptavina.

Númer eitt í þjónustu

Við höfum sett okkur háleit markmið um að veita bestu þjónustuna á tryggingamarkaði. Það skiptir okkur miklu máli að heyra að viðskiptavinir okkar eru stöðugt að verða ánægðari með okkar þjónustuframboð og viðmót og fylgjumst við vel með mælingum sem mæla ánægju viðskiptavina. Ein af áherslum okkar á síðasta ári var að efla þjónustu við viðskiptavini með auknu frumkvæði. Markmiðið er að breyta því hvernig við þjónustum viðskiptavini með því að vera skrefi á undan. Fjölmargar deildir tóku virkan þátt og áttum við frumkvæði að samskiptum við um 30% viðskiptavina okkar. Með þessum styrkjum við þjónustuna okkar, tryggjum að viðskiptavinir hafi rétta tryggingavernd og sýnum þeim að við erum til staðar á mikilvægum augnablikum. Við opnuðum nýja skrifstofu í Reykjanesbæ sem er liður í því að huga betur að þjónustunni okkar á landsbyggðinni. Við opnuðum líka pop-up skrifstofur á Akranesi og Höfn sem fengu frábærar viðtökur. Við höldum áfram að hækka í íslensku Ánægjuvoginni milli ára og höfum sett okkur markmið um að verða hæst allra tryggingafélaga þar.

Samkeppnisumhverfi í tryggingarekstri

Mikil samkeppni er á markaði með tryggingar á Íslandi og finnum við fyrir því að sú samkeppni hefur aukist á undanförnum árum. Með auknu samspili trygginga- og bankareksturs á Íslandi hefur samkeppnisumhverfi trygginga breyst talsvert og er fyrirséð að sú þróun haldi áfram. Við brugðumst við þessu breytta landslagi í upphafi árs 2025 með tilkynningu um viðamikið samstarf við Íslandsbanka. Samstarfið, sem felur í sér aukna þjónustu við þá einstaklinga sem eru í viðskiptum við bæði VÍS og Íslandsbanka, hefur mikil tækifæri í för með sér og við horfum spennt fram á veginn. Nánari útfærslur á samstarfinu verða kynntar á vormánuðum.

Besta teymið

Hjá VÍS starfar afar helgað og ánægt starfsfólk. Við fengum staðfestingu á því, bæði í niðurstöðu vinnustaðagreiningar sem framkvæmd var í lok árs auk þess sem VÍS var eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum VR, nú í fimmta sinn. Starfsánægja mældist 4,47 og er 94% starfsfólks ánægt eða mjög ánægt í starfi. Auk þess mælist helgun 4,33 sem eru jafnframt frábærar niðurstöður. Við leggjum mikla áherslu á að skapa framúrskarandi vinnustað því við vitum að ánægt og helgað starfsfólk er mikilvæg undirstaða fyrir öfluga árangursmenningu.

VÍS er rúmlega 100 ára gamalt félag og við sem störfum hjá félaginu höfum öll þá ábyrgð að skila því sífellt sterkara og öflugra inn í framtíðina. Það er fátt sem gleður mig meira en að finna hvað starfsfólk VÍS er sameinað í því verkefni.

Guðný Helga Herbertsdóttir
Forstjóri VÍS

Meira áhugavert efni

Árið 2024

Gott fyrsta ár samstæðu. Ný samstæða Skaga var kynnt formlega í febrúar 2024 og hefur fyrsta starfsár samstæðunnar verið um margt gott.  

Lesa meira

Starfsemin

Skagi er móðurfélag VÍS, Fossa og Íslenskra verðbréfa og stefnir á arðbæran vöxt á sviði tryggingastarfsemi, fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringar.

Lesa meira

Sjálfbærni

Sjálfbærni skiptir máli. Við viljum að starfsemi okkar og þjónusta stuðli að sameiginlegum ávinningi fyrir allt samfélagið.

Lesa meira

Lykiltölur

Helstu lykiltölur úr rekstri félagsins árið 2024.

Lesa meira

Ávarp stjórnarformanns

Við tókum stór skref á árinu 2024 í þróun samstæðu Skaga. Grunnrekstur á öllum starfssviðum samstæðunnar batnaði á sama tíma og við héldum áfram að huga að framtíðarsýn félagsins.

Lesa meira

Ávarp forstjóra

Síðasta ár var viðburðaríkt þar sem ný samstæða Skaga hóf sitt fyrsta starfsár.

Lesa meira