11.09.2025

Skagi nær áfram góðum árangri í UFS mati Reitunar

Skagi hf. fær 81 stig og einkunnina B1 í nýlega uppfærðu UFS sjálfbærnimati Reitunar fyrir árið 2025.

mynd

Í samantekt Reitunar segir að árangur Skaga sé áfram góður og yfir meðaltali í öllum flokkum í samanburði við 45 aðra innlenda útgefendur. Meðaltal markaðarins sýni heildareinkunn sem sé nú 73 stig af 100 mögulegum, flokkur B2.

Horft er til fjölda þátta í matinu, svo sem birtingar Skaga á umhverfisbókhaldi á samstæðugrundvelli fyrir árið 2024 og kaupa á vottuðum einingum fyrir mælda losun samstæðunnar.

Þá kemur fram að Skagi leggi áherslu á að huga vel að mannauði og byggi þar á góðri umgjörð um mannauðsmál frá VÍS. Fyrrum mannauðsstjóri VÍS er nú mannauðsstjóri Skaga og ber ábyrgð á mannauðsmálum samstæðunnar.

Starfsánægja mælist heilt yfir góð og unnið að því að innleiða samræmda og formlega ferla í mannauðsmálum hjá öllum dótturfélögum Skaga. Þá eru jafnréttismál samstæðunnar í góðum farvegi og kynjahlutföll heilt yfir innan marka.

Þá er vísað til þess að Skagi sé aðili að viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI) og að þær skuldbindingarnar nái einnig til dótturfélaga samstæðunnar.

„Samstæðan í heild sinni stefnir á að leggja ríka áherslu á sjálfbærnimál og verður áhugavert að fylgjast með þróun þeirra mála,“ segir í umsögn Reitunar.