03.07.2024
Samkeppniseftirlitið gerir ekki athugasemd við kaup Skaga á Íslenskum verðbréfum
Kaup Skaga á Íslenskum verðbréfum voru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins.
Nú hefur fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins verið aflétt en Samkeppniseftirlitið tilkynnti um ákvörðun sína með eftirfarandi ákvörðunarorðum: „Kaup Skaga hf. á um 98,07% af heildarhlutafé Íslenskra verðbréfa hf. fela í sér samruna í skilningi 17. gr. samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til þess að aðhafast vegna samrunans.“
Eftir stendur fyrirvari um samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands fyrir því að Skagi fari með yfir 50% eignarhlut í Íslenskum verðbréfum og dótturfélagi þess, ÍV sjóðum.