12.11.2024
Kaup á Íslenskum verðbréfum og ÍV sjóðum frágengin
Kaupin á Íslenskum verðbréfum hf. (ÍV) og dótturfélagi þess ÍV sjóðum, sem tilkynnt var um þann 8. maí sl. eru nú frágengin og rekstur ÍV verður hluti af samstæðu Skaga frá og með fjórða ársfjórðungi.
Kaupverðið var greitt seljendum með reiðufé. Með kaupunum verður samstæða Skaga enn öflugri þátttakandi á fjármálamarkaði með víðtækar starfsheimildir til fjármálaþjónustu.
Íslensk verðbréf er eitt elsta starfandi fjármálafyrirtæki landsins sem þjónað hefur einstaklingum, fyrirtækjum og fagfjárfestum frá árinu 1987. Starfsemi þess verður nú samþætt samstæðu Skaga sem byggir á 106 ára sögu, breiðum viðskiptamannagrunni, sterkum efnahagi og víðtækum tengslum við atvinnulíf og fjármálamarkaði.
Með kaupunum skapast umtalsverð samlegð en jafnframt tækifæri til vaxtar og sóknar, þar sem m.a. er stefnt að því að efla þjónustu við viðskiptavini á Norðurlandi ásamt því að styrkja stöðu samstæðunnar á sviðum eignastýringar og markaðsviðskipta. Horft er til að SIV eignastýring og ÍV sjóðir sameinist undir nafni Íslenskra verðbréfa, en með því verður til öflugt eignastýringarfélag með um 200 ma.kr í stýringu.
Haraldur I. Þórðarson, forstjóri Skaga:
„Það eru ánægjuleg tímamót að geta loks boðið Íslensk verðbréf velkomin inn í samstæðu Skaga. Við erum mjög bjartsýn á framhaldið og höfum nú þegar séð vísbendingar um fjölbreytt tækifæri sem kaupin leiða af sér. Það er gaman að segja frá því að rótgróið vörumerki Íslenskra verðbréfa mun áfram eiga heimili innan samstæðunnar og verður rekstur SIV eignastýringar og ÍV sjóða sameinaður undir nafni Íslenskra verðbréfa.“