31.10.2025
Grunnrekstur samstæðu Skaga styrkist áfram
Hagnaður Skaga á þriðja ársfjórðungi nam 717 milljónum króna og arðsemi eigin fjár var 13,2 prósent á ársgrundvelli. Í nýju árshlutauppgjöri kemur jafnframt fram að kröftugur vöxtur VÍS hélt áfram á fjórðungnum og jukust tekjur af vátryggingasamningum um tæplega 10% á þriðja ársfjórðungi og á fyrstu níu mánuðum ársins.

„Grunnrekstur samstæðunnar var áfram sterkur sem birtist í talsverðum afkomubata hans á milli ára, sér í lagi í tryggingastarfsemi samstæðunnar sem er áfram í mikilli sókn og skilaði umtalsverðri aukningu á afkomu af vátryggingasamningum,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga.
Tekjur af fjármálastarfsemi samstæðunnar uxu í takt við markmið og jukust um 42 prósent milli ára. Afkoma á tímabilinu var þó undir væntingum þrátt fyrir jákvæða þróun frá fyrra ári. Haraldur segir að áfram verði lögð áhersla á að ná arðsemismarkmiðum í fjármálastarfsemi Skaga samhliða tekjuvexti.
„Góður taktur er í uppbyggingu nýrra tekjustoða og dreifingu tekna í fjárfestingabankastarfsemi. Efnahagur Fossa óx á fjórðungnum og hefur ekki verið stærri frá upphafi, eða um 25 milljarðar króna,“ segir Haraldur.
Hann ssegir ánægjulegt að greina frá því að Skagi hafi hækkaði á milli ára í UFS mati Reitunar, en í því hlaut félagið 81 stig og einkunnina B1. Þá hafi Skagi, ásamt dótturfélögunum VÍS tryggingum og Fossum fjárfestingarbanka, hlotið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.
Í byrjun október var tilkynnt um samrunaviðræður Skaga og Íslandsbanka. Haraldur segir Skaga sjá mikið virði í sameiningu félaganna með því að innleiða samþætt viðskiptamódel sem miði að styrkleikum beggja félaga. Sameinað félag yrði leiðandi á banka- og tryggingamarkaði auk þess sem samruninn myndi búa til til öflugri fjárfestingarbanka- og eignastýringarstarfsemi með fjölmörg tækifæri til frekari sóknar.
„Stjórnendur áætla að ferlið í heild sinni geti tekið á bilinu níu til tólf mánuði og við munum halda fjárfestum og öðrum markaðsaðilum upplýstum um næstu skref um leið og þau skýrast,“ segir Haraldur.
Uppgjörstilkynningu Skaga til Nasdaq Iceland má finna HÉR og lista yfir tilkynningar Skaga til Kauphallarinnar HÉR.
Frekari upplýsingar og upptöku af fjárfestakynningu vegna uppgjörsins má svo finna HÉR.