27.02.2025

Gott ár í rekstri Skaga

Rekstrarmarkmiðum 2024 náð og horfur góðar.

mynd

Helstu lykiltölur 2024

Samstæðan

  • Hagnaður eftir skatta nam 2.258 m.kr. (2023: 1.832 m.kr.).
  • Áframhaldandi tekjuvöxtur í tryggingastarfsemi með 10,2% vöxt milli ára. Kostnaðarhlutfall fer lækkandi og samsett hlutfall í takt við markmið eða 94,9% (2023: 99,5%).
  • Hreinar tekjur í fjármálastarfsemi nema 2.344 m.kr. á árinu og vaxa um 91%% milli ára í pro-forma samanburði.
  • Ávöxtun af fjáreignum, sér í lagi skráðum hlutabréfum, tók við sér á fjórða ársfjórðungi en óskráð hlutabréf lita afkomu fjárfestinga fyrir árið í heild.
  • Hagnaður á hlut nam 1,19 kr. á árinu. (0,97 kr árið 2023)
  • Eigið fé samstæðu nemur 22,3 ma.kr.
  • Arðsemi eigin fjár var 10,8% á ársgrundvelli (2023: 10,2%) og gjaldþol samstæðu er 1,35 í lok tímabilsins.

Tryggingastarfsemi

  • Áframhaldandi tekjuvöxtur í tryggingastarfsemi sem vex um 10,2% á milli ára.
  • Tekjuvöxtur í líf- og sjúkdómatryggingum var 14,9% milli ára.
  • Samsett hlutfall var 94,9% (2023: 99,5%) í takt við markmið ársins um <95% samsett hlutfall.
  • Kostnaðarhlutfall var 19,1% (2023: 22,3%).
  • Afkoma af vátryggingasamningum nam 1,479 m.kr. (2023: 143 m.kr.) sem samsvarar 1.336 milljóna króna viðsnúningi milli ára

Fjármálastarfsemi (1)

  • Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 2.344 m.kr. (Pro-forma 2023: 1.225 m.kr.).
  • Samsetning tekna í fjármálastarfsemi í átt að aukinni dreifingu hélt áfram á árinu 2024, en á árinu stóðu tekjur af markaðsviðskiptum undir 38% af tekjum í fjármálastarfsemi samanborið við 69% árið 2023
  • Eignir í stýringu (e. AuM) námu 227 ma.kr.
  • Afkoma af fjármálastarfsemi var jákvæð um 18 m.kr. fyrir skatta og 220 m. kr. eftir skatta.
  • Jákvæð áhrif skatta stafa að mestu af f skattalegum áhrifum í tengslum við framvirka samninga viðskiptavina og þeirra áhættuvarna sem bankinn beitir vegna þeirra.

(1) Samanburður við fyrra ár í fjármálastarfsemi byggir á rekstri Fossa árið 2023. SIV fékk ekki starfsleyfi fyrr en um mitt árið 2023.

Fjárfestingar

  • Fjárfestingartekjur námu 3,657 m.kr (2023: 4,753 m.kr.), sem samsvarar 8,3% ávöxtun.
  • Ávöxtun af fjárfestingum var lægri en viðmiðunarvísitölur, sem kemur til að mestu vegna lækkunar á virði óskráðra hlutabréfa í eignasafninu.
  • Hreinar tekjur af fjárfestingum námu 1,742 m.kr. (2023: 2.771 m.kr.).

Helstu lykiltölur 4F 2024

  • Hagnaður samstæðu eftir skatta nam 1.558 m.kr. (4F 2023: 152 m.kr.).
  • Afkoma af vátryggingasamningum nam 437 m.kr. (4F 2023: 245 m.kr.) og vöxtur tekna 10,3%
  • Samsett hlutfall 94,2% (4F 2023: 96,4%).
  • Kostnaðarhlutfall 19,8% (4F 2023: 23,8%)
  • Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 892 m.kr. (4F 2023: 447 m.kr.) og hagnaður fyrir skatta nam 169 m.kr. (4F 2023: -4 m.kr.).
  • Fjárfestingartekjur námu 1.646 m.kr. (4F 2023: 1.498 m.kr.)

Haraldur Þórðarson, forstjóri:

Árið 2024 var fyrsta heila rekstrarár Skaga og ánægjulegt var að sjá að megin markmiðum sem voru sett fyrir árið var náð. Grunnrekstur á öllum starfssviðum samstæðunnar batnaði á sama tíma og markviss skref voru tekin í átt að framtíðarsýn félagsins. Breyttar áherslur í rekstri VÍS skiluðu sér í miklum tekjuvexti, aukinni arðsemi og sókn í markaðshlutdeild á árinu. Fjármálastarfsemin óx einnig umtalsvert á síðasta ári, bæði með innri- og ytri vexti og skilaði jákvæðri afkomu á tímabilinu. Með innkomu Íslenskra verðbréfa á fjórða ársfjórðungi jukust eignir í stýringu innan samstæðunnar um ríflega 100 milljarða og stóðu í tæplega 230 milljörðum í lok árs. Um áramótin lauk formlega flutningi tryggingarekstrar í dótturfélagið VÍS tryggingar hf. og er samstæðan því komin í sitt framtíðarhorf. Á árinu 2024 tókum við því markviss skref í átt að langtímamarkmiðum okkar og það er óhætt að segja að við séum á góðri leið.

Tryggingarekstur á mikilli siglingu

Árið 2024 var virkilega gott hjá VÍS tryggingum þar sem markmiðum um iðgjaldavöxt, lækkun kostnaðar og ánægju viðskiptavina var öllum náð. Iðgjaldavöxtur var 10,3% á fjórða ársfjórðungi og 10,2% á árinu í heild, sem er umfram vöxt markaðarins á báðum tímabilum. Þá nam vöxtur líf- og sjúkdómatrygginga um 14,9%. Breyttar áherslur í þjónustu og sölu auk sértækra aðgerða á kostnaðarhliðinni skiluðu sér í umtalsverðri lækkun á bæði kostnaðarhlutfalli og samsettu hlutfalli. Afkoma af vátryggingum jókst mikið á milli ára eða úr 143 milljónum árið 2023 í 1.479 milljónir árið 2024. Niðurstaðan er eitt besta ár í tryggingarekstri frá skráningu félagsins. Það er í takt við markmið okkar um arðbæran vöxt. Við höfum sett okkur markmið um að veita bestu þjónustuna á tryggingamarkaði. Það skiptir okkur því miklu máli að heyra að viðskiptavinir okkar eru stöðugt að verða ánægðari með okkar þjónustuframboð og viðmót og fylgjumst við vel með mælingum sem mæla ánægju viðskiptavina. Það var því sérstaklega ánægjulegt að hafa fengið bestu niðurstöðu í íslensku ánægjuvoginni í 17 ár.

Jákvæð afkoma og áframhaldandi tekjuvöxtur í fjármálastarfsemi

Tekjur af fjármálastarfsemi jukust mikið eða um 91% á milli ára og náðust þau tekjumarkmið sem sett voru fyrir árið 2024. Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 2.344 milljónum á árinu en lagt var upp með að tekjur yrðu umfram 2.200 milljónir á árinu. Starfsemi Fossa fjárfestingarbanka óx stórum skrefum en, þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður drjúgan hluta ársins, þá nær tvöfaldaðist efnahagur bankans á árinu og reglulegar tekjur bankans jukust hlutfallslega í takti við það. Aðgengi bankans að skuldabréfamarkaði gefur góð fyrirheit fyrir áframhaldandi vöxt þar sem skuldabréfaútgáfur bankans á síðasta ári voru bæði á samkeppnishæfum kjörum og fjölbreyttari þegar litið er til líftíma þeirra og eiginleika. Afkoma bankans eftir skatt var jákvæð um 225 milljónir á fjórða ársfjórðungi og 166 milljónir fyrir árið í heild. Starfsemi Íslenskra verðbréfa kom inn í rekstur samstæðunnar frá og með fjórða ársfjórðungi en kaupin voru mikilvægt skref í átt að aukinni stærðarhagkvæmni í fjármálastarfsemi. Eignir í stýringu innan samstæðunnar námu 227 milljörðum í árslok.

Ávöxtun fjárfestingareigna undir viðmiðum

Fjárfestingartekjur ársins námu 3.657 milljónum eða sem nemur 8,3% ávöxtun en viðmiðunarvísitala safnsins hækkaði um 11,1% á sama tíma. Lægri nafnávöxtun en viðmið safnsins má rekja til lækkunar á óskráðum hlutabréfum og munar þar mest um virðisbreytingu á Controlant sem lækkaði um 625 m.kr. á árinu eða 71% í gengið 30, sem er þó hærra en upphaflegt kaupgengi félagsins. Eignaflokkar skráðra verðbréfa gengu vel á árinu og var afkoma hæst af skráðum hlutabréfum og skuldabréfum fyrirtækja.

Fjárfestingartekjur fjórða ársfjórðungs námu 1.646 milljónum eða sem nemur 3,6%. Ávöxtun fjórðungsins var að mestu borin uppi af hækkun skráðra hlutabréfa en auk þess var ávöxtun skuldabréfaflokka góð í samanburði. Undanfarin sjö ár er meðalávöxtun safns um 4% umfram viðmið á ári.

VÍS tryggingar hefja starfsemi

Líkt og kynnt var undir lok árs 2023 hefur verið unnið að því að færa tryggingareksturinn í nýtt dótturfélag, VÍS tryggingar hf. Samþykki Seðlabanka Íslands fékkst fyrir tilfærslunni undir lok árs 2024 og tók VÍS tryggingar hf. til starfa um síðast liðin áramót. Þar með náðist mikilvægur áfangi í skipulagi samstæðunnar, þar sem móðurfélagið Skagi hf. verður með þrjár lykileiningar, VÍS tryggingar á tryggingamarkaði, Fossa fjárfestingarbanka á fjármálamarkaði og Íslensk verðbréf á sviði eigna- og sjóðastýringar .

Íslensk verðbréf: Öflugt eigna- og sjóðastýringarfélag á nýju ári

Í maí tilkynntum við um kaup á nær öllu hlutafé í Íslenskum verðbréfum hf. og dótturfélagi þess, ÍV sjóðum hf. og í kjölfarið var unnið að samþættingu félaganna við rekstur Skaga samstæðunnar. Á nýju ári verða Íslensk verðbréf sameinuð við Fossa fjárfestingarbanka og ÍV sjóðir við SIV eignastýringu. Gert er ráð fyrir að sameiningarnar taki mið af áramótunum að fengnu samþykki eftirlitsaðila. Sameinað félag ÍV sjóða og SIV eignastýringar mun starfa undir nafni Íslenskra verðbréfa, og verður stærsta eigna- og sjóðastýringarfélag utan bankanna fjögurra, með yfir 200 milljarða króna eignir í stýringu. Árangur sjóða sameinaðs félags var heilt yfir góður á árinu 2024 en SIV hlutabréf var með hæstu ávöxtun sjóða innlendra rekstrarfélaga sem og innlendra hlutabréfasjóða auk þess að ÍV Erlent Hlutabréfasafn var með hæsta ávöxtun íslenskra sjóða sem fjárfesta í erlendum hlutabréfum. Sameinað rekstrarfélag undir merkjum Íslenskra verðbréfa, með öflugu teymi starfsmanna, er vel í stakk búið til að sækja fram af krafti á eignastýringarmarkaði.

Rekstrarhorfur 2025

Horfur fyrir rekstrarárið 2025, sem við kynntum í uppgjöri þriðja ársfjórðungs 2024 eru (2):

  • Tryggingastarfsemi: Samsett hlutfall verði á bilinu 93% – 96%. Markmið <94%.
  • Fjármálastarfsemi: Hreinar fjármálatekjur (3) nemi á bilinu 2.900 – 3.500 milljónir. Markmið >3.100 milljónir.
  • Fjárfestingartekjur: Áætluð ávöxtun fjárfestingareigna á árinu er 10% en það er byggt á forsendum miðað við vaxtastig í upphafi árs og fjárfestingarstefnu. (4)

---

(2) Upplýst verður um afkomuhorfur í trygginga- og fjármálastarfsemi ef þær breytast frá þeim vikmörkum sem kynntar eru.

(3) Hreinar fjármálatekjur eru allar tekjur í fjármálastarfsemi, þ.m.t. hreinar vaxta- og þóknanatekjur, fjármunatekjur og aðrar tekjur.

(4) Um er að ræða áætlaða ávöxtun fjárfestingareigna VÍS. Ekki verður upplýst um frávik frá áætlaðri ávöxtun fjárfestingareigna. Félagið birtir upplýsingar um stærstu eignir í fjárfestingarstarfsemi í fjárfestakynningum ársfjórðungslega. Hafa skal í huga að heildarstærð fjárfestingarsafnsins getur hækkað og lækkað vegna verðbreytinga, arðgreiðslna, endurkaupa, tilfærslu á ráðstöfun fjármagns innan samstæðu o.fl.