11.04.2024

Frá VÍS til Skaga

Erla Tryggvadóttir hefur verið ráðin samskiptastjóri Skaga, sem er móðurfélag VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og SIV eignastýringar. Hjá Skaga ber Erla ábyrgð á almennatengslum, markaðsmálum, fjárfestatengslum, ásamt sjálfbærni.

mynd

Erla hefur áralanga reynslu í almannatengslum og markaðsmálum. Áður en hún hóf störf hjá VÍS sem samskiptastjóri árið 2019, var hún starfandi framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um sjálfbærni. Hún starfaði einnig hjá Brandenburg auglýsingastofu, á samskipta- og markaðssviði hjá Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka og starfaði lengi hjá RÚV, bæði í sjónvarpi og útvarpi.

Erla er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er jafnframt með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði frá HR og Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (CBS) og BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Erla hefur þegar hafið störf.

Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri Skaga.

„Ég er stolt af því að hefja störf hjá Skaga enda er félagið á spennandi vegferð á íslenskum fjármálamarkaði og með metnaðarfull markmið. Ég hlakka til að leggja mín lóð á vogarskálarnar í áframhaldandi vegferð og sókn félagsins.“

Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga.

„Ég fagna komu Erlu í framúrskarandi hóp starfsfólks hjá Skaga. Framundan eru spennandi tímar fyrir félögin í samstæðunni og ég er þess fullviss að reynsla hennar og þekking muni styrkja okkur enn frekar til framtíðar. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs.”