02.07.2025

Forstjóri Skaga í viðtali við Dagmál

Í nýju viðtali Dagmála, frétta- og dægurmálaþáttar Morgunblaðsins, við Harald Þórðarson, forstjóra Skaga, bendir hann meðal annars á stöðu Skaga á íslenskum fjármálamarkaði og telur ósennilegt væri að hreyfingar verði á fjármálamarkaði án þess að það skapist tækifæri fyrir Skaga.

mynd
Haraldur Þórðarson í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins. Viðtalið birtist 2. júlí 2025. Mynd: Morgunblaðið-Dagmál

„Við erum nýr áskorandi í fjármálalandslaginu. Ég held að samþjöppun á fjármálamarkaði hér heima muni skila sér í tækifærum fyrir Skaga,“ segir Haraldur meðal annars í viðtalinu.

Hann áréttar um leið að þó Skagi horfi til ytri vaxtar verði slíkur vöxtur ekki á hvaða forsendum sem er. „Við höfum sagt opinberlega að við séum mjög opin fyrir ytri vexti samhliða innri vexti, enda erum við sem fjármálasamstæða á vaxtarvegferð. Við viljum vera virkur þátttakandi í þróun á fjármálamarkaði. Þannig að við skoðum reglulega tækifæri til ytri vaxtar og leggjum mat á hvort þau samrýmast okkar framtíðarsýn,“ segir hann.

Í viðtalinu er einnig komið inn á regluverk á íslenskum fjármálamarkaði, sem Haraldur bendir á að sé hannað fyrir mun stærra markaðsumhverfi, sem geri að verkum að fjármálaþjónusta á Íslandi verði dýr í samanburði við önnur lönd.

Samþjöppun á fjármálamarkaði geti því verið af hinu góða til að auka skilvirkni og hagkvæmni. Það telur Haraldur að geti orðið öllum til hagsbóta, neytendum þar á meðal.

Þá var í þættinum snert á öðrum þáttum þróunar á fjármálamarkaði, svo sem á notkun gervigreindar og möguleikum þeirrar tækni til að styðja við og auka afköst starfsfólks.

Viðtal Dagmála við Harald Þórðarson má nálgast HÉR.