29.02.2024

Nýtt afl á fjármálamarkaði

Skagi er nýtt nafn móðurfélags VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og SIV eignastýringar.

mynd
Haraldur Þórðarson, er forstjóri Skaga.

Framtíðarskipulag samstæðunnar hefur verið kynnt og samþykkt af hluthöfum með tilfærslu tryggingareksturs í dótturfélag. Skagi verður skráða félagið í Kauphöll Íslands, sem áður var undir merkjum VÍS.

Með sameiningu VÍS, Fossa og SIV verður til nýtt afl á fjármálamarkaði sem stefnir á arðbæran vöxt á sviði trygginga, fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringar. Á síðasta ári fór mikill kraftur í sameiningu félaganna og er samþættingu þeirra nú lokið. Nýtt nafn og vörumerki var kynnt til sögunnar í gær samhliða boðun til aðalfundar þann 21. mars næstkomandi. Fyrsta uppgjör nýrrar samstæðu var birt í kauphöllinni eftir lokun markaða í gær.

300 tillögur í nafnasamkeppni

Eftir ítarlega leit, þar sem starfsfólk samstæðunnar skilaði inn hátt í þrjú hundruð tillögum, fannst nafn sem stóðst allar kröfur. Nafnið Skagi er innblásið af íslenskri náttúru, styrk hennar og samspili við líf fólksins í landinu. Það vísar í stórt nes eða langan höfða og þykir kröftugt en er á sama tíma stutt og hljómfagurt.

Hinir ýmsu skagar landsins teygja sig tignarlega frá meginlandinu með fallegu útsýni yfir land og sjó. Tröllaskagi, Skipaskagi, Tindaskagi, Garðskagi og Skagatá - skaga er að finna í öllum landshlutum. Nafnið er viðeigandi fyrir fyrirtæki með djúpar rætur í íslensku samfélagi líkt og tryggingafélagið en vísar í einnig í markmið félagsins að tengja íslenskt atvinnulíf við erlenda markaði.

Samstæðan býr að langri og farsælli sögu í tryggingarekstri, framsækni í fjármálaþjónustu og langtímaárangri í fjárfestingum. Áhersla er lögð á framúrskarandi þjónustu og traust langtímasamband við viðskiptavini.

Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga:

„Frá því að sameining félaganna var frágengin í byrjun október á síðasta ári hefur mikil vinna farið fram í tengslum við samþættingu þeirra og innleiðingu á framtíðarfyrirkomulagi samstæðunnar. Nú þegar samþættingu er lokið kynnum við nýtt nafn og vörumerki móðurfélagsins til sögunnar. Nýtt afl á fjármálamarkaði er tilbúið til sóknar.“